Málþroski

Málþroski barna á leikskólaaldri leggur grunn að síðara námi í grunnskóla. Málþroski skiptist í máltjáningu og málskilning. Máltjáning vísar til þess hvernig þú tjáir þig eða talar, til dæmis með því að spyrja spurninga, segja sögu eða tjá tilfinningar. Málskilningur felur í sér hversu vel þú skilur tungumálið eða það sem aðrir segja, eins og að skilja setningar, orð og hugtök viðmælanda. Góður orðaforði er mikilvægur bæði fyrir máltjáningu og málskilning. Aðrir þættir sem falla undir málþroska eru málnotkun, orð, setningar og hljóð.

Þroskaþrep

Börn eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þau ganga þó í gegnum sömu skref eða þrep þegar kemur að tal- og málþroska. Hér eru nokkur þrep sem þau fara í gegnum á aldrinum 2-4 ára.

Sjá þrep varðandi framburð hér.

2 ára

  • Barnið notar um 200 orð.
  • Barnið tengir saman tvö orð og myndar tveggja orða setningar eins og: Mamma út.
  • Barnið getur fylgt einföldum fyrirmælum (1 þrepa): Náðu í stígvélin.
  • Barn sem notar færri en 50 orð og tengir ekki saman tvö orð til að mynda setningar gæti verið seint til máls.

3 ára

Orðaforði stækkar ört frá 2 ára aldri og barnið lærir ný orð á hverjum degi. Við þriggja ára aldur gæti barnið verið komið með um 1000 orð. Þó er það misjafnt eftir börnum hversu hratt þau bæta við sig nýjum orðum.

  • Barnið tengir þrjú eða fleiri orð saman í setningar og myndar þriggja til fimm orða setningar.
  • Barnið notar fleirtölu orða eins og: bílar, kubbar o.s.frv.
  • Barnið notar veika þátíð sagna eins og: borðaði, hoppaði o.s.frv.
  • Barnið skilur fleiri orð en það notar.
  • Barnið getur fylgt flóknari fyrirmælum (2 þrepa): Taktu upp leikföngin og settu þau í kassann

3-4 ára

  • Barnið talar mest um stað og stund en getur líka sagt frá því sem hefur gerst (þátíð).
  • Barnið spyr mikið og notar hvar, hver, hvað spurningar.
  • Barnið getur svarað spurningum eins og: Hvað gerir þú þegar þér er kalt?
  • Barnið er farið að spjalla á þessum aldri en er enn að læra ýmsar samskiptareglur eins og að skiptast á í samræðum. Einnig getur það átt erfitt með að halda sig við umræðuefni og getur vaðið úr einu yfir í annað.
  • Barnið leikur meira við önnur börn. Talar við þau í leik, skiptist á og hermir eftir einföldum athöfnum t.d. tala í símann, elda matinn o.s.frv.
Hvenær er ástæða til þess að hafa áhyggjur?

Barnið þarf ekki að kunna allt sem fram kemur í þroskaþrepunum hér að ofan en ef mörg atriði eru ekki komin er ástæða til að kanna þroska barnsins frekar. Á þessari vefsíðu er hægt að finna ýmis almenn ráð um hvernig hægt er að efla málþroska barna. Upplýsingar um hvert hægt er að leita ef áhyggjur vakna má sjá hér.

Bæklingur frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands um málþroska barna þar sem meðal annars eru upplýsingar um þróun máltöku.

ASHA. (2024). Communication milestones. https://www.asha.org/public/developmental-milestones/communication-milestones/

Heyrnar og Talmeinastöðin. (2024). Málþroski barna. https://hti.is/images/skjol-pdf/Malthroski%20barna.pdf

Hvar stend ég? (2024). https://www.hvarstendeg.net/3-4-ara

Language development: 2-3 years. (2024). Raising Children Network. Retrieved June 5, 2024, from https://raisingchildren.net.au/toddlers/development/language-development/language-2-3-years#vocabulary-and-language-development-in-toddlers-at-2-3-years-nav-title

The Western NSW Local Health District. (2024). Waiting for speech pathology. https://www.nsw.gov.au/departments-and-agencies/wnswlhd/services/speech-pathology

Universally Speaking Age 0-5. (2015). www.ican.org.uk

Walker, D., Sepulveda, S. J., Hoff, E., Rowe, M. L., Schwartz, I. S., Dale, P. S., Peterson, C. A., Diamond, K., Goldin-Meadowh, S., Levine, S. C., Wasik, B. H., Horm, D. M. og Bigelow, K. M. (2020). Language intervention research in early childhood care and education: A systematic survey of the literature. Early Childhood Research Quarterly, 50, 68-85. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2019.02.010