Framburður vísar til þess hvernig við berum fram málhljóð tungumálsins og hvernig við setjum þau saman til að mynda orð. Börn hafa náð tökum á flestum málhljóðum íslenskunnar við 4 ára aldur.
Þó eru nokkur hljóð sem tekur aðeins lengri tíma að læra.
Þroskaþrep
Hljóðaklettar Lubba sýna dæmigerða þróun í tileinkun á málhljóðum íslenskunnar.
Á meðan börn eru að tileinka sér málhljóðin á máltökuskeiði er misauðvelt að skilja tal þeirra.
- 2 ára gömul geta þau gert sig skiljanleg u.þ.b. helming tímans þegar þau tala við foreldra sína.
- Milli 2 og 3 ára eiga sér stað framfarir í framburði. Þau sleppa samt oft endingum orða og ókunnugir geta átt í erfiðleikum með að skilja tal þeirra.
- Við 4 ára aldur geta flest þeirra gert sig vel skiljanleg í flestum aðstæðum.
- Algengt er að börn séu lengi að ná tökum á s- og r-hljóði. Þau segja þá gjarnan þól í stað sól og ðebbi í stað rebbi. Flest börn ná tökum á r-hljóðinu á fimmta ári en þó er algengt að það komi ekki alveg fyrr en við sex ára.
- Sum orð er erfiðara að bera fram en önnur, t.d. löng orð eða orð sem á annan hátt eru þannig samsett að börn eru lengi að ná tökum á. Sem dæmi má nefna orð eins og blaðra (sem þau bera oft fram sem blarða) eða paprika (sem verður stundum að prabika). Mestu máli skiptir þó að tal barns sé skiljanlegt og langoftast skilst það vel þótt ekki séu öll hljóðin komin eða að það glími við nokkur erfið orð.
Mynd fengin með leyfi höfunda (Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir, 2019)
Ef barn er ekki komið með ákveðið málhljóð er best að endurtaka leiðrétt eftir barninu í stað þess að benda á villur eða mistök. Á myndbandinu hér má sjá dæmi um aðferðina.
Forðist að biðja barnið um að segja ákveðið málhljóð sem það á í erfiðleikum með eða getur ekki myndað. Ekki segja við barnið t.d. „segðu err“. Það hjálpar því ekki og getur haft neikvæð áhrif á viðleitni barnsins til að mynda rétt hljóð.
Gagnlegt efni
Lærum og leikum með hljóðin
Lærum og leikum með hljóðin eftir Bryndísi Guðmundsdóttur er gagnlegt efni til að vinna með íslensku málhljóðin. Inni á vefsíðu efnisins er hægt að finna frekari upplýsingar um efnið og einnig fróðleik um tal- og málþroska. Einnig er hægt að hlaða niður smáforritinu Lærum og leikum með hljóðin og þar er hægt að skoða og vinna með hvert málhljóð fyrir sig.
Lubbi finnur málbein
Lubbi finnur málbein er bók eftir Eyrúnu Ísfold Gísladóttur og Þóru Másdóttur og er hugsuð til málörvunar og hljóðanáms. Sérstaða Lubbaefnisins eru táknrænar hreyfingar fyrir hvert málhljóð. Á heimasíðu Lubba má finna margvíslegar upplýsingar um Hljóðasmiðjur Lubba, m.a. efni sem leggur grunn að lestri og ritun. Hægt er að hlusta á lög og vísur um öll málhljóðin á YouTube og á Spotify. Einnig eru nýir þættir um Lubba aðgengilegir á Sjónvarpi Símans.
Heyrnar og talmeinastöðin. (2024). Málþroski barna. https://hti.is/images/skjol-pdf/Malthroski%20barna.pdf
Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir. (2019). Hljóðaklettar Lubba.
Þóra Másdóttir (2019). Hljóðþróun íslenskra barna á aldrinum tveggja til átta ára. Netla. https://doi.org/10.24270/netla.2019.11
Walker, D., Sepulveda, S. J., Hoff, E., Rowe, M. L., Schwartz, I. S., Dale, P. S., Peterson, C. A., Diamond, K., Goldin-Meadowh, S., Levine, S. C., Wasik, B. H., Horm, D. M. og Bigelow, K. M. (2020). Language intervention research in early childhood care and education: A systematic survey of the literature. Early Childhood Research Quarterly, 50, 68-85. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2019.02.010