Fjöltyngi

Barn sem býr á Íslandi en talar annað/önnur tungumál heima hjá sér telst vera fjöltyngt. Foreldrar eiga að tala sitt tungumál við barnið og mikilvægt er að nota málörvunaraðferðir sem hafa verið kynntar til leiks (sjá hér). Í leikskólanum byrjar barnið að læra íslensku, fyrst algeng orð og svo setningar og málfræðiatriði sem jafnaldrar hafa náð tökum á. Leggja þarf áherslu á að kenna strax orð sem auðvelda börnum að tjá sig um þarfir sínar, líðan, langanir og félagsleg samskipti. Smá saman þarf síðan að kenna börnunum flóknari orð og setningagerðir.

Máltaka barna hefst yfirleitt á svipaðan hátt óháð tungumálum. Fjöltyngd börn læra fleiri en eitt orð fyrir hvern hlut, tilfinningu, athöfn o.fl. Því virðast þau oft vera lengur að læra tungumálið og kunna færri orð en jafnaldrar. Rannsóknir sýna að fjöltyngd börn kunna svipaðan fjölda orða og jafnaldrar en þau dreifast á þau tungumál sem þau eru að læra. Tími í tungumáli skiptir miklu máli þegar börn eru að ná tökum á tungumáli. Rannsóknir sýna að barn þarf að verja um 40-50% af vökustundum sínum í tungumáli til að ná sömu færni og eintyngd börn. Til að ná tökum á tungumálum sínum þarf barn að eiga í gagnvirkum samskiptum við börn og fullorðna.

Ráð

  • Til að barn geti náð góðum tökum á tungumálinu þurfa samskipti foreldra við börn að vera tíð og fjölbreytt. Tileinkun barnsins á bæði móðurmáli og samfélagsmáli er háð tíðni og gæðum samskipta.

  • Æskilegt er að foreldrar séu með stefnu og ákveði hvaða tungumál þeir tali við börnin sín innan heimilis og sín á milli.

  • Nýtið málörvunaraðferðir í athöfnum daglegs lífs.

  • Lesið saman og nýtið málörvunaraðferðina samræðulestur.

  • Viðhorf foreldra til tungumáls hefur áhrif. Foreldrar sem tala annað mál en íslensku heima við þurfa samt sem áður að sýna jákvætt viðhorf til íslenskunnar.

  • Það hefur EKKI neikvæð áhrif á tal- og málþroska barnsins að læra fleira en eitt tungumál í einu.

Hvernig geta foreldrar fjöltyngdra barna stutt börn sín í námi í leik- og grunnskólum?

Ráð

Miðja máls og læsis

Hér er hægt að finna bæklinga sem búið er að þýða yfir á nokkur tungumál sem fjalla um tví- og fjöltyngi. Þeim er ætlað að veita foreldrum upplýsingar um tví- og fjöltyngi.

Myndaþema (Bildetema):

Hér er hægt að finna myndaorðabók með ýmsum algengum orðum og yfirhugtökum. Hægt er að skoða sömu myndirnar og orð á 26 mismunandi tungumálum.

Orð eru ævintýri: Tungumálavefur

Tungumálavefur þar sem öll orð úr bókinni Orð eru ævintýri eru þýdd yfir á átta tungumál: arabísku, dönsku, ensku, filippseysku, kúrdísku, pólsku, spænsku og úkraínsku. Hægt er að ýta á orðin og þá eru þau lesin upphátt á íslensku.

ASHA. (2024). Learning more then one language. https://www.asha.org/public/speech/development/learning-more-than-one-language/

Byers-Heinlein, K. og Lew-Williams, C. (2013). Bilingualism in the Early Years: What the Science Says. Learning Landscapes, 7(1), 95–112. https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC6168212/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTAAAR26H4TU_s4ahEF4p4-oODLlEe0y_M09TOJ8xlwyE-VxoYsXElKyXc4tMJQ_aem_ARV0ZyWczFPs_sq38xJZKhkXM4fEArg6yu1UliS9Strg1d0h85nU48KwDWW9k20bROWb4qpXqF0aTmmcrs2V6Gpm

The Western NSW Local Health District. (2024). Waiting for speech pathology. https://www.nsw.gov.au/departments-and-agencies/wnswlhd/services/speech-pathology

Thordardottir, E. (2017). Amount trumps timing in bilingual vocabulary acquisition: Effects of input in simultaneous and sequential school-age bilinguals. International Journal of Bilingualism, 23(1), 236–255. https://doi.org/10.1177/1367006917722418