Málörvunaraðferðir

Málörvun í athöfnum daglegs lífs

Málörvunaraðferðir sem kynntar eru hér fyrir neðan er hægt er að nýta í athöfnum daglegs lífs til að örva mál og tal barna. Þessar aðferðir miða meðal annars að því að setja orð á allar athafnir og leiðrétta barnið á jákvæðan hátt. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt fram á að þessar aðferðir virka til að auka færni barna í tungumálinu.

Fyrirmyndir

Þú gefur barninu fyrirmyndir af setningum, orðum og hljóðum. Þú ert málfyrirmynd barnsins og til að auka orðaforða og bæta setningar og málfræði barnsins er gott að gefa þeim fyrirmyndir af orðum og setningum yfir allan daginn. Barnið þarf ekki endilega að tjá sig eða svara.

Þú gefur fyrirmyndir

Þið sitjið og eruð að lita.
Foreldri: Ég ætla að lita blómið. Mig vantar rauðan lit… Núna ætla ég að lita himininn. Mig vantar bláan lit…Og svo ætla ég að lita grasið. Mig vantar grænan lit.

Annað dæmi getur verið:
Þið eruð í búðinni.
Foreldri: Setjum brauðið ofan í körfuna.
Barnið: Brauð í körfu.
Foreldri: Brauðið er komið ofan í körfuna.
Foreldri: Hum… hvað setjum við á brauðið – ost eða sultu?

Sjálftal

Talaðu um það sem þú ert að gera

Samhliðatal

Talaðu um það sem barnið er að gera

Sjálftal og samhliðatal eru málörvunaraðferðir sem gagnast vel, sér í lagi ef barnið tjáir sig takmarkað. Með þessum aðferðum ertu að setja orð á athafnir og hluti í nánasta umhverfi barnsins. Hægt er að styðjast við eftirfarandi hugmyndir af umræðuefni. Talaðu um: hluti, athafnir, staðsetningarhugtök (t.d. fyrir framan, undir, við hliðina á o.s.frv.), tilfinningar, liti, lögun, áferð, lykt, bragð og aðra skynjun. Oft er talað um að vera eins og íþróttalýsandi í eigin lífi. Með því að beita þessum aðferðum fær barnið meira máláreiti og fleiri tækifæri til að heyra sama orðið endurtekið í ólíkum beygingarmyndum.

Endurtaka leiðrétt

Endurtaktu rétt það sem barnið segir

Á máltökuskeiði eru börn að læra réttar beygingar, málfræði og setningauppbyggingu og því víkja setningar þeirra oft frá máli fullorðinna. Í stað þess að benda á mistök eða villur í máli þá er hægt að endurtaka leiðrétt eftir þeim. Barnið fær einnig staðfestingu á hlustun sem hvetur til enn frekari samskipta.

Lengja setningar

Lengdu setningarnar sem barnið segir

Til að auka við orðaforða er hægt að svara barninu með því að lengja setningar þess og bæta við orðum. Sniðugt getur verið að nota þessar aðferðir til að leggja inn orð sem barnið notar lítið. Eins og kemur fram í myndbandinu notar barnið fá lýsingarorð. Viðmælandinn endurtekur leiðrétt og bætir inn lýsingarorðum eins og:

Barn: Hann er undir jakkanum

Viðmælandi: Hann er undir rauða jakkanum.

Dæmi um daglegar athafnir þar sem þú getur nýtt málörvunaraðferðirnar:

  • Þegar þið klæðið ykkur á morgnanna
  • Þegar þið eruð að versla í matinn
  • Spila saman spil
  • Í bílnum á leiðinni í leikskólann eða á göngu á leiðinni í leikskólann
  • Í leik með barninu
  • Setja saman þvott í þvottavélina eða brjóta saman þvott
  • Þegar barnið er í baði
  • Við matarborðið

Samræðulestur

Samræðulestur er ein leið málörvunar. Samræðulestur snýst um gagnvirk samskipti milli foreldra og barna á meðan lesið er. Lestur eykur við orðaforða barna og í gegnum lestur læra þau ný orð og hugtök. Þau læra einnig hvernig sögur og frásagnir eru byggðar upp.

Það er hægt að lesa saman á morgnanna, beint eftir leikskóla, fyrir kvöldmat eða fyrir svefn, þið finnið þann tíma sem hentar ykkur og barninu ykkar best.

Hafið bækur aðgengilegar og sýnilegar heima og lesið saman daglega

Til að byrja með er mikilvægt að velja bók sem er viðeigandi fyrir þroskastig barnsins. Umfjöllunarefni bókarinnar þarf að höfða til barnsins svo það hafi áhuga. Til að finna skemmtilegar og áhugaverðar bækur er til dæmis hægt að fara á bókasöfn og þar er hægt að fá aðstoð frá bókasafnsfræðingum.

1. Byrjið á því að skoða bókina
  • Flettið í gegnum hana, skoðið myndir og ályktið um umfjöllunarefni bókarinnar. Hægt væri að spyrja barnið: Hmm um hvað er þessi bók?

 

2. Svo byrjið þið að lesa.
  • Staldrið við flókin orð og útskýrið þau.
  • Skoðið myndirnar og talið um þær og söguþráðinn sem tengist þeim, prófið að spyrja barnið hvað er á myndunum.
  • Spyrjið barnið hvað það heldur að sé að fara að gerast á næstu blaðsíðu.
  • Notið opnar spurninga t.d. afhverju er hann glaður? eða hvað er að gerast á þessari mynd?
  • Tengið efni sögunnar við eitthvað sem barnið hefur upplifað raunverulega.
  • Notið aðferðir eins og að endurtaka leiðrétt og lengja setningar (sjá málörvunaraðferðir hér að ofan) þegar þið lesið og spjallið saman um bókina.
  • Fylgist með hvernig barnið bregst við lestrinum, skilur það spurningarnar, þekkir það orðin sem eru rædd. Aðlagið lesturinn og umræðurnar að barninu.

3. Þegar þið lesið sömu bókina aftur athugið hvort að barnið muni flóknu orðin og merkingu þeirra.
  • Endurtekningar eru mikilvægar og ef barnið er með slakan málþroska eða lítinn orðaforða þá þarf það enn fleiri endurtekningar.
  • Hvetjið barnið til að endursegja söguna eða einhverja áhugaverða atburði í sögunni.

Bellon-Harn, M. L., Morris, L. R., og Jones, A. (2021). A self-managed internet parent training program for interactive storybook reading: Extension to a public school setting. Perspectives of the ASHA Special Interest Groups, 6(6), 1753–1761. https://doi.org/10.1044/2021_persp-21-00094

Heidlage, J. K., Cunningham, J. E., Kaiser, A. P., Trivette, C. M., Barton, E. E., Frey, J. R. og Roberts M. Y. (2020). The effects of parent-implemented language interventions on child linguistic outcomes: A meta-analysis. Early Childhood Research Quarterly, 50(1), 6–23. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2018.12.006

Jóhanna Thelma Einarsdóttir, Eyrún Agnarsdóttir, Íris Ösp Bergþórsdóttir. (2022). Tvítyngd börn, orðaforði og sögulestur Í Jóhanna Einarsdóttir (ritst.) Leikandinn bls 137-167. Reykjavík. Háskólaútgáfan

Sigrún Alda Sigfúsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Þorlákur Karlsson og Íris Ösp Bergþórsdóttir. (2020). Orðaforðakennsla með sögulestri fyrir börn með málþroskaröskun Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. http://netla.hi.is/greinar/2020/ryn/04.pdf.

Suttora, C., Zuccarini, M., Aceti, A., Corvaglia, L., Guarini, A. og Sansavini, A. (2021). The effects of a parent-implemented language intervention on late-talkers’ expressive skills: The mediational role of parental speech contingency and dialogic reading abilities. Frontiers in Psychology, 12, 723366. https://doi.org/10.3389/fpsyg.2021.723366

Walker, D., Sepulveda, S. J., Hoff, E., Rowe, M. L., Schwartz, I. S., Dale, P. S., Peterson, C. A., Diamond, K., Goldin-Meadowh, S., Levine, S. C., Wasik, B. H., Horm, D. M. og Bigelow, K. M. (2020). Language intervention research in early childhood care and education: A systematic survey of the literature. Early Childhood Research Quarterly, 50, 68-85. https://doi.org/10.1016/j.ecresq.2019.02.010