Stam

Stam er truflun á talflæði þar sem talið getur verið höktandi. Börn sem stama geta átt í erfiðleikum með að koma orðum og setningum eðlilega frá sér.

Stam getur komið mismunandi fram í tali:

Festingar: Þegar barnið festist á ákveðnu orði/hljóði og getur ekki komið því frá sér.

Lengingar: Til dæmis þegar hljóð orða lengjast eins og „kkkkkk-aka“, „Eeeeeer hann…“

Endurtekning á hljóðum/orðum: „mig…mig…mig…“, „ku-ku-ku-kubbar“

Lang flest börn sem byrja að stama á leikskólaaldri hætta að stama en önnur halda áfram. Líkur á því að stamið haldi áfram aukast eftir því sem barnið er búið að stama lengur og einnig ef stam er algengt í ætt barnsins.

Ef barn á aldrinum 3-6 ára er búið að stama í 6 mánuði eða lengur eða ef stamið er alvarlegt þá er mælt með að hefja meðferð hjá talmeinafræðingi. Meðferðir leikskólabarna eru beinar meðferðir og óbeinar meðferðir. Lidcombe aðferðin sem er bein aðferð hefur sterkasta rannsóknagrunninn. Sjá upplýsingar hér varðandi hvert hægt er að leita ef upp koma áhyggjur.

Ráð

  • Leitist við að halda uppi eðlilegum samskiptum við barnið hvort sem það stamar eða ekki.
  • Talið hægar við barnið og gerið oftar hlé á milli setninga, þó ekki þannig að talið hljómi óeðlilega.
  • Gefið barninu góðan tíma til að tjá sig
  • Minnkið kröfur á tal. Ef barnið á erfitt með að tjá sig vegna stamsins, einfaldið mál ykkar og ekki krefjast þess að barnið tali mikið.
  • Reynið að fækka spurningum og spyrja barnið lokaðra spurninga þar sem nóg er fyrir barnið að svara já eða nei. Einnig getur verið árangursríkt að hlusta á barnið og svara frekar spjalli barnsins í stað þess að spyrja það spurninga.
  • Góð hugmynd getur verið að veita barninu gæðastund með foreldri þar sem það fær óskipta athygli og þar sem foreldri hlustar á barnið og talar rólega og hlýlega til þess. Þá upplifir barnið að foreldri njóti þess að eiga í samskiptum við það.

Einarsdóttir, J. T., Hermannsdóttir, B., & Crowe, K. (2024). A prospective 14-year follow-up study of the persistence and recovery of stuttering. Journal of Fluency Disorders, 80, 106058.

Neuman, K., Euler, H.A., Bosshardt, H. -G., Cook, S., Sandrieser P. og Sommer, M. (2017). The pathogenesis, assessment and treatment of speech fluency disorders. Deutsches Aerzteblatt Online, 114(22-23). https://doi.org/10.3238/arztebl.2017.0383

Onslow, M. (2023). Stuttering and its treatment: Twelve lectures. https://www.uts.edu.au/asrc/resources

The Western NSW Local Health District. (2024). Waiting for speech pathology. https://www.nsw.gov.au/departments-and-agencies/wnswlhd/services/speech-pathology